Sigrún Yrja - Skemahegðun: Þroskaferli barna í gegnum leik

Höfundur: Sigrún Yrja / Leikvitund

Þegar við áttum okkur á því hvar áhugi barna liggur hverju sinni getum við betur boðið þeim umhverfi og afþreyingu við hæfi.

Þegar ég tala um áhuga er ég ekki að meina hvort barn hafi áhuga á bílum, kubbum, hvolpasveit eða einhverju slíku. Ég er að tala um innri áhugahvöt barna. Hvað barnið hefur áhuga á að læra og hvaða þroskaferli er í gangi hjá þeim. Barnið sjálft er ekki endilega meðvitað um þennan áhuga og það er auðvelt að taka ekki eftir honum ef maður þekkir ekki birtingarmyndina.

Þar koma skemu til sögunnar.

Orðið skema er notað til að lýsa endurteknum athöfnum barna. Athafnir sem á einn eða annan hátt stuðla að þroska þeirra í gegnum leik. Fræðin um skemahegðun barna eru ekki ný af nálinni. Jean Piaget, sem þekktur er fyrir kenningar sínar um vitsmunaþroska barna, var með þeim fystu til að fjalla um skemahegðun barna árið 1923. Hann talaði um skemu sem leið barna til að skipuleggja þekkingu sem þau öðlast um heiminn og veröldina í kringum sig.

Börn sækja í endurtekningar því þannig læra þau best. Þau vilja heyra það sama aftur og aftur, skoða það sama aftur og aftur og gera það sama aftur og aftur. Börn þroskast og læra með því að uppgötva, prófa og mistakast – aftur og aftur þar til einn daginn ná þau ákveðnum áfanga. Sjáðu bara fyrir þér barn sem er að læra að ganga. Það prófar sig áfram og mistekst margoft en einn daginn þá er barnið farið að labba út um allt.

Ímyndum okkur nú barn sem lemur kubb í gólfið aftur og aftur. Við sjáum kannski ekki tilgang með slíkri hegðun en þarna er barnið að kanna, uppgötva og að öðlast ákveðinn skilning. Barnið notar hreyfingu (að lembja kubbnum í gólfið) og skynjun (hljóð og tilfinningin þegar kubburinn lendir á hörðu gólfi) til að læra og þroskast. Við sem erum fullorðin erum búin að taka út þennan þroska, við gengum í gegnum nákvæmlega sama ferli þegar við vorum börn. Þess vegna vitum við núna að það gerist ekkert þegar við lemjum kubbnum í gólfið annað en að það kemur hávaði. En börn vita það ekki nema prófa það – aftur og aftur og aftur!

Með því að þekkja skemahegðun barna getum við betur tekið eftir því þegar börnin okkar ganga í gengum ákveðinn þroska og eru að læra eitthvað nýtt. Þegar við tökum eftir ákveðnu skema hjá barninu okkar getum við hagað umhverfi barnsins þannig að það hafi fleiri tækifæri til að rannsaka, kanna, upplifa og prófa – aftur og aftur og aftur. Þannig stuðlum við að auknum þroska og lærdómi hjá börnum.                                                                                                                               

HELSTU SKEMUN

Í gegnum tíðina hafa verið skilgreind fjölmörg skemu en það er oftast talað um átta skemu sem er algengt að sjá hjá börnum.

Trajectory skema – áhugi á því hvernig hlutir og fólk hreyfist.
Við getum séð börn kasta hlutum, hlaupa fram og til baka, hoppa upp og niður, klifra upp og hoppa niður, róla sér fram og til baka.

Orientation skema – áhugi á að kanna heiminn frá ólíkum sjónarhornum
Við getum séð börn hanga á hvolfi, klifra hátt upp til að hafa útsýni, kíkja inn í lítil göt, horfa í gegnum stækkunargler og fleira.

Connecting skema – áhugi á að festa hluti saman (og stundum að taka þá í sundur).
Við getum séð börn festa hluti saman með reipi, snæri, límbandi, heftum, lími, nöglum og öðru eins.

Rotation skema – áhugi á hvers kyns snúningi
Við getum séð börn snúa, velta og rúlla hlutum eða sér sjálfum eða sitja fyrir framan þvottavélina og horfa á tromluna fara hring eftir hring eftir hring.

Enclosing skema – áhugi á að afmarka svæði í kringum sig eða hluti.
Við getum séð börn umlykja sig sjálf eða hluti með því að búa til veggi í kringum sig, girðingar í kringum leikfangadýrin eða búa til ramma í kringum teikningarnar sínar.

Enveloping skema – áhugi á að hylja sig eða hluti.
Við getum séð börn breiða yfir sig ítrekað, vefja hlutum inn í eitthvað eða fela hluti.

Positioning skema – áhugi á að raða, flokka og búa til mynstur
Við getum séð börn raða eða flokka eftir stærð, litum eða gerð eða séð börn raða í línu, meðfram, í kringum og í stafla.

Transporting skema – áhugi á að færa hluti frá einum stað til annars
Við getum séð börn með fulla vasa af allskyns gersemum eða að þau fylli dúkkuvagninn af dóti og rúnti um með það.

Það væri þægilegt ef skemahegðun barna væri þokkalega línuleg þar sem eitt skema tæki við af öðru og að öll börn færu í gegnum þau á svipuðum aldri og á svipaðan hátt. En það er ekki þannig.

  • Til dæmis sýna sum börn greinilega skemahegðun en önnur börn gera það ekki (en því betur sem þú þekkir til skemahegðunar því auðveldara áttu með að koma auga á slíka hegðun)
  • Svo geta börn sem hafa sýnt augljósa skemahegðun tekið tímabil þar sem engin áberandi skemahegðun er sjáanleg.
  • Skemu koma fram á ólíkan hátt hjá ólíkum börnum. Tvö börn geta verið í sama skema en birtingarmyndin getur samt verið mjög ólík
  • Börn fara ekki endilega í gegnum öll skemun. Eða að skemahegðun er augljós í sumum skemum en ekki jafn augljós í öðrum.
  • Börn geta farið í gegnum sama skemað nokkrum sinnum. Þannig er það á okkar heimili. Við sjáum börnin fara reglulega í gegnum sömu skemun. Algegnast hjá eldra barninu hefur verið trajectory skema sem snýst um hreyfingu og connecting skema sem snýst um að festa saman hluti. Yngra barnið fer reglulega í gegnum enveloping skema sem snýst um að hylja sig eða hluti og transporting skema sem snýst um að ferja hluti frá einum stað til annars.
  • Algengt er að börn fari í gegnum fleira en eitt skema í einu. Það er einmitt þannig með yngra barnið og hennar helstu skemu. Það gerist reglulega að hún sé í enveloping skema og transporting skema á sama tíma. Það er þónokkuð algengt hjá börnum.

 

Skemahegðun er oft mest áberandi hjá börnum á aldrinum eins til þriggja ára.  Þá eru börn komin á ferðina og þau vilja rannsaka og kanna heiminn. Þau prófa að henda hlutum, lemja hlutum saman, þau láta hluti detta, þau rúlla hlutum, þau fikta í hltuum. Þau eru að uppgötva, þroskast og læra!

Það getur verið krefjandi þegar börn eru að kanna heiminn og gera sömu ósækilegu hlutina aftur og aftur. En ef við vitum hvað liggur að baki er oft auðveldara að mæta börnum með skilning og þolinmæði.

Það er nefnilega svo ótal margt sem börn þurfa að kanna og prófa. Þau eru svo glæný og þau þurfa að uppgötva allt það sem við þekkjum og kunnum. Þau þurfa að prófa það aftur og aftur og aftur til að vera viss um að þau séu að skilja rétt. Að þeirra upplifun sé ekki einskorðuð við eitt skipti.

Þannig að barn sem ítrekað hendir disknum sínum á gólfið er ólíklega að gera það til að reyna á þolmörk foreldra sinna. Barnið er ómeðvitað að kanna hvað gerist þegar diskurinn dettur í gólfið aftur og aftur. Heyrist mismunandi hljóð í mismunandi diskum? Heyrist mismunandi hljóð eftir því hvaða matur er á disknum?

 

Skemahegðun barna breytist og verður fágaðri eftir því sem börn verða eldri.

Við sjáum ekki alltaf tilgang með skemahegðun ungra barna. Þegar strákurinn minn var lítill var hann ansi upptekinn af því hvernig hlutir hreyfast og þá henti hann hlutum í tíma og ótíma. Hann var í trajectory skema. Hann hefur alltaf reglulega sýnt augljós merki þess að vera í trajectory skema og nú þegar hann er átta ára þá birtist það helst í ásókn í íþróttir og hreyfingu. Nú þykir þessi hegðun ekki undarleg. Hún hefur augljósan tilgang.

En það var líka tilgangur með þessari hegðun hjá honum þegar hann var tveggja ára og henti öllu mögulegu í tíma og ótíma. Hann var að læra á heiminn. Hann var að læra á þyngdarlögmálið. Hann var að læra á líkama sinn. Hann lærði að hann gæti kastað lengra ef hann setti meiri kraft í kastið. Hann lærði að hann gæti kastað bolta lengra en slæðu eða blaði.

Ég sá það kannski ekki þá enda ekki búin að læra um skemun og auðvitað var það krefjandi tímabil. En þegar ég áttaði mig á að hann væri í Trajectory skema og gat hagað umhverfi hans miðað við það var þessi hegðun miklu viðráðanlegri. Ég bauð honum að henda á öruggan hátt. Hann fékk mjúka bolta sem mátti henda á ákveðnum stað á heimilinu. Þá gat hann alltaf uppfyllt þessa þörf fyrir að henda hlutum. Í kjölfarið dró verulega úr því að hann væri að henda óæskilegum hlutum á óheppilegum tímum.

 


Hér hef ég stiklað á stóru um skemahegðun barna en ég vona að þú hafir lært af þessu. Það er svo gagnlegt fyrir alla sem sinna börnum að þekkja til skemahegðunar. Þegar við þekkjum skemahegðun barna getum við betur búið börnum umhverfi sem stuðlar að auknum þroska, við getum stuðlað að lengri og sjálfstæðari leikstundum hjá börnunum okkar og við getum betur mætt allskyns krefjandi hegðun.

Ef þú vilt læra meira um skemahegðun barna mæli ég með bókinni Understanding Schemas in Young Children – Again! Again! eftir S. Louis, C. Beswick, L. Magraw og L. Hayes.

 

Einnig getur þú skráð þig á netnámskeið sem ég setti saman um skemahegðun barna. Í námskeiðinu er farið mun ítarlegra yfir skemahegðun. Fyrir hvert skema er til dæmis farið yfir atriði eins og hvað einkennnir hvert skema, hvaða lærdómur og þroski á sér stað, athafnir og hegðun sem benda til þess að barn sé í ákveðnu skema. Ég fer líka yfir hvað getur reynst erfitt í hverju skema og hvernig við getum mætt börnum til að draga úr því.

Eins fer ég yfir hugmyndir um afþreyingu í hverju skema og líka leikfangaval sem er líklegt að henti vel fyrir hvert skema.

Námskeiðið er þannig byggt upp að þú getur tekið það á eigin hraða, hvenær sem er. Það er kaflaskipt og hver kafli er stuttur þannig að það er auðvelt að taka smá í einu sem hentar vel foreldrum ungra barna sem hafa ekki mikinn frítíma. Eins er námskeiðið þannig að þú þarft ekki að sitja fyrir framan tölvuskjáinn að fylgjast með. Þú getur hlustað á meðan þú sinnir öðrum störfum.

Námskeiðinu fylgir handbók þar sem farið er yfir allt efni námskeiðsins þannig að það er auðvelt að fletta líka upp. Eins fylgir námskeiðinu aðgangur að lokuðum facebook hóp um skemahegðun barna.

Ýttu hér til að skoða betur námskeiðið um skemahegðun barna.

 


Leave a comment

Please note, comments must be approved before they are published

This site is protected by reCAPTCHA and the Google Privacy Policy and Terms of Service apply.


You may also like

View all
Example blog post
Example blog post
Example blog post